Dagný Guðmundsdóttir
Dagný Guðmundsdóttir
· forsíða · sýningar · ferilskrá · umfjöllun · myndasafn · verk til sölu · blogg

Dómur um Karlmenn til prýði
(Morgunblaðið, 3. mars 2005)
MYNDLIST - Hvalstöðin við Ægisgarð
Andardráttur
Karlmenn til prýði. Blönduð tækni, Dagný Guðmundsdóttir"Dagný sýnir hér svo ekki verður um villst hvernig hægt er að virkja umhverfið sem hluta af sýningu á afar jákvæðan hátt."

ALMENNT séð eru konur löngu orðnar leiðar á að vera sjónrænt viðfangsefni karlkyns ljósmyndara, listamanna, myndhöggvara og þar fram eftir götunum. Hlutfallið milli kvenna á myndfleti listaverka í safni og kvenna í safnstjórn t.d. er ólíkt. Nakinn kvenmannslíkami virðist þó alltaf jafn spennandi, eða hvernig eiga myndlistarkonur að vekja athygli á list sinni í fjölmiðlum? Það má reyna að sýna nektarmyndir og þá er nokkuð víst að einhver vakni til lífsins líkt og Kastljós sjónvarpsins gerði um daginn með viðtali við unga listakonu sem sýndi nektarmyndir af sjálfri sér, en myndlistarsýningar hafa tæpast getað talist til umfjöllunarefna þess hingað til. Í umræðu um þessa sýningu, eða gjörning öllu heldur, uppi í Listaháskóla um daginn kom einn kvenkyns nemandi minn með þá skörpu athugasemd að gjörningurinn hefði verið ólíkt áhugaverðari ef um nakinn karlmann hefði verið að ræða. Orð að sönnu og spennandi að velta því fyrir sér hvernig það hefði virkað á samferðamenn.

Nekt og líkaminn er viðfangsefni Dagnýjar Guðmundsdóttur myndlistarkonu sem nú sýnir verk sín á óvenjulegum sýningarstað, í Hvalstöðinni við Ægisgarð. Sýning Ólafar nú er óbeint framhald af sýningu hennar í Listhúsi Ófeigs árið 2003, en einnig þar var karlmannslíkaminn viðfangsefni hennar, í formi gifsmynda á borði. Nú hefur Dagný víkkað út samhengi verka sinna, bæði með nýjum miðli og ekki síst staðsetningu verkanna í skipslest. Heimur karlmanna er allt um kring, í köldu stálinu, sjávarlyktinni og hreinlega kuldanum sem ríkir í lestinni, það andar köldu. Mótvægi við þennan ytri kulda eru myndböndin sem Dagný sýnir en þau sýna brjóstkassa og upphandleggi karlmanna, torso. Dagný hefur valið unga og stælta menn sem myndefni og staðsetur sig þar með í umræðunni, fegurðardýrkun samfélagsins verður óhjákvæmilega viðfangsefni þessara mynda, efni sem ef til vill er nokkuð erfitt að finna nýja fleti á. En á móti þessu kemur hinn mannlegi þáttur, brjóstkassinn sem andar og verður um leið ekki aðeins karlmannlegur heldur fyrst og fremst mannlegur. Viðkvæmur í kuldanum. Þannig tekst Dagnýju að vekja margs konar hugrenningatengsl með verkum sínum, um stöðu karlmannsins í samfélaginu, stöðu sem er sífellt að breytast sem betur fer en veldur karlmönnum ef til óöryggi. Undir skel hins harða manns býr viðkvæmt líf, einnig hann er mannlegur. Verk Dagnýjar vísa einnig til listasögunnar og höggmynda gegnum tíðina. Fyrst og fremst tekst henni þó að virkja verk sín í samhengi við þennan óvenjulega sýningarstað, tengja þau við samfélagið og skapa eftirminnilega mynd og upplifun sem vísar í margar áttir. Einn mest lifandi þáttur samtímalistar er einmitt samhengið við sýningarstaðinn. Þessi þáttur er ekki alltaf nýttur og listamenn ganga enn að því sem vísu að sýningarsalir séu hentugastir fyrir list þeirra. Dagný sýnir hér svo ekki verður um villst hvernig hægt er að virkja umhverfið sem hluta af sýningu á afar jákvæðan hátt.

Ragna Sigurðardóttir


Dagný Guðmundsdóttir - dagny@dagny.is - Barmahlíð 22, 105 Reykjavík. Sími 847 0946