Dagný Guðmundsdóttir
Dagný Guðmundsdóttir
· forsíða · sýningar · ferilskrá · umfjöllun · myndasafn · verk til sölu · blogg

Í hlutanna eðli - stefnumót lista og minja
Úr sýningarskrá: Dagný Guðmundsdóttir, Minjasafni Reykjavíkur, Árbæjarsafni
Þegar ég hugsa um Forn-Grikki finnst mér Vesturlandabúar nútímans eiga svo margt sameiginlegt með þeim. Stæltir fagurskapaðir líkamar eru í hávegum hafðir en á sama tíma er líkamleg vinna lítils metin. Við viljum helst fá útlendinga til að vinna erfiðustu verkin fyrir okkur en Grikkir notuðu útlenda þræla. Það þykir bara fínt að nota líkamann í leiki og sýningar.

Ég ákvað að móta karlmannslíkama og steypa í gips.Til að hlutgera þá hafði ég þá í bútum, stælt læri og rasskinn eða stæltur magi. Ég verð æ uppteknari af karlmannslíkamanum og furða mig á því hvað konur hafa lítið notað hann í myndlist. Hvernig horfa konur á karlmannslíkamann? Þetta er skemmtilegt viðfangsefni. Fyrst gerði ég sýningu þar sem ég setti marga búta af stæltum karlmannslíkömum á borð með damaski.

Ég gerði líka sýningu sem ég hafði niðri í lest á skipi sem áður var loðnuskip. Í kaldri, dimmri lest sem áður var yfirráðasvæði karlmanna voru myndbandsbrot af heitum, stæltum karlmönnum sem önduðu og hreyfðu sig með fallega textíla sem bakgrunn. Þar var líka uppdekkað borð þar sem bæði dúkurinn og bollarnir voru skreyttir með mynd af stæltum karlmannskviði. Ég hef alltaf haft gaman að því að dekka borð með fallegum hlutum.

Það eru margir skemmtilegir munir á Árbæjarsafni. Ég rakst á bleika pottaleppa sem voru gerðir löngu áður en feministar frelsuðu bleika litinn. Þeir voru festir saman með langri snúru til að konan gæti hengt þá á sig, þá voru þeir alltaf við höndina. Þetta var skólaskyldustykki stúlkna. Það skein samt af þessum pottaleppum að þeir höfðu verið í höndunum á sterkri ákveðinni konu. Mig langaði allt í einu til að gera karlmannspart og setja í hendurnar á henni og vita hvað mundi gerast. Það var framlag mitt á þessa sýningu.


Dagný Guðmundsdóttir - dagny@dagny.is - Barmahlíð 22, 105 Reykjavík. Sími 847 0946