Dagný Guðmundsdóttir
Dagný Guðmundsdóttir
· forsíða · sýningar · ferilskrá · umfjöllun · myndasafn · verk til sölu · blogg

Dómur um Horfum á karlmenn
(Morgunblaðið, 8. nóvember 2003)
MYNDLIST - Listhús Ófeigs
Þrælar
Horfum á karlmenn. Blönduð tækni, Dagný Guðmundsdóttir


"Verkin sjálf [...] eru höggmyndir af mismunandi pörtum af karlmannslíkamanum, á uppdekkuðu borði."

DAGNÝ Guðmundsdóttir gefur upp nokkra bolta á sýningu sinni Horfum á karlmenn í Listhúsi Ófeigs á Skólavörðustíg. Í fyrsta lagi fjallar hún um líkamsdýrkunina í samfélaginu sem virðist einungis fara vaxandi með árunum. Hún segir að í vestrænum samfélögum séu fagrir og vel stæltir líkamar í hávegum hafðir, líkt og meðal forn-Grikkja, en á sama tíma sé líkamleg vinna ekki hátt skrifuð. Hún fjallar einnig um það hvernig við breytum líkamanum með æfingum. Þá er sýningin pólitísk með vísan sinni til umræðunnar síðustu daga um laun og aðbúnað erlendra starfsmanna við Kárahnjúka.

"Útlendingar eru fengnir til að vinna erfiðustu líkamlegu vinnuna en Grikkir notuðu útlenda þræla," segir Dagný í sýningarskránni.

Þessar hugleiðingar Dagnýjar eiga vel við og sérstaklega er gaman að sjá listamenn sem með verkum sínum búa til samræðu við hinn ytri veruleika. Vangaveltur Dagnýjar um líkamsdýrkunina eru klisjukenndari.

Verkin sjálf, sem þetta snýst auðvitað allt um, eru höggmyndir af mismunandi pörtum af karlmannslíkamanum, á uppdekkuðu borði. Þannig býður hún áhorfendum í veislu, að dást að sundurbútuðum karlmannslíkama, vel þjálfuðum, vöðvastæltum, og reynir að láta okkur finna til sektar fyrir að verða yfirborðsmennskunni að bráð.

Þóroddur Bjarnason


Dagný Guðmundsdóttir - dagny@dagny.is - Barmahlíð 22, 105 Reykjavík. Sími 847 0946